Árið byrjaði farsællega hjá STEM Húsavík, en fyrsta vinnustofa fyrir kennara var haldin 2. janúar. Það voru rúmlega 40 kennarar og annað starfsfólk frá leikskólanum Grænuvöllum sem nýttu hluta úr starfsdegi sínum til að læra um STEAM fyrir leikskóla.

Um vinnustofuna sáu Huld Hafliðadóttir og Bridget Burger, en starfsfólk kom í fjórum hópum og stóð hver vinnustofa yfir í um klukkustund.
Á vinnustofunni voru kynnt ný STEM tæki og leikir fyrir starfsfólk, en tækin verða aðgengileg til útláns í tækjasafni STEM Húsavík. STEM tækin eru hluti af styrkveitingu Bandaríska sendiráðsins, en STEM Húsavík hlaut styrk frá Bandaríska sendiráðinu nú í vetur. Með styrkveitingunni gefst STEM Húsavík kleift að bjóða upp á vinnustofur fyrir kennara í kringum tæki í tækjasafni, sem og að kaupa og eiga STEM tæki sem styðja við kennslu STEM greina.
Markmið vinnustofunnar var að gefa yfirsýn yfir STEAM og hvernig það lítur út í kennsluumhverfi barna á fyrstu skólastigunum, eða fyrir 1-6 ára börn og kynna STEAM orðaforða sem fellur vel að kennsluumhverfi ungra barna.
Þá var markmiðið einnig að efla og hvetja kennara til að bæði kenna STEAM sem og að nýta sér sem og innleiða orðaforða STEAM við kennslu. Þá undirstrikuðu Huld og Bridet að það mikilvæga er að muna að börn eru vísindamenn frá nátturunnar hendi. Þau kynnast heiminum með því að gera tilraunir, snerta, skynja, smakka og nota til þess vísindalega aðferð. Sömu aðferð og vísindafólk notar, neman í einfaldaðri mynd.








Þá endaði hver vinnustofa á heimsókn í FabLab Húsavík þar sem starfsfólk fékk kynningu á starfseminni og hugmyndir að mögulegri nýtingu í leikskólastarfi ræddar.
Stuðningur við kennara var ein af meginaðgerðum STEM Húsavík sem skilgreindar voru í stefnumótun í maí 2022, en bæði Lóa, Nýsköpunarstyrkur fyrir landsbyggðina, sem og styrkurinn frá Bandaríska sendiráðinu styrktu vinnustofur fyrir kennara. Til stendur að bjóða upp á vinnustofur fyrir kennara allra skólastiganna á Húsavík á næstu vikum og mánuðum.