STEM Húsavík er fyrsta þverfaglega STEM fræðslunetið á Íslandi með áherslu á samfélagsþátttöku. (STEM vísar til Science, Technology, Engineering and Math).
Samfélagsleg nálgun á STEM fræðslu og kennslu eykur áhuga ungra sem aldinna á umhverfi sínu og opnar fyrir möguleika í grunnmenntun, símenntun og endurmenntun. Slík nálgun getur einnig ýtt undir áhuga á raungreinum strax á unga aldri og eflt vísinda-, umhverfis- og haflæsi allra þátttakenda, auk þess að hvetja til nýskapandi nálgana á aðsteðjandi og raunverulegum vandamálum.

STEM Húsavík var formlega sett á laggirnar í lok maí 2022 af verkefnastjóra, ráðgjafa og ráðgefandi stjórn STEM Húsavík. Þá var unnin markmiðsyfirlýsing, innviðakortlagning og SVÓT greining, auk stefnumótunarvinnu STEM Húsavík fyrsta árið. Í ráðgefandi stjórn sitja aðilar frá eftirfarandi stofnunum: Þekkingarneti Þingeyinga/FabLab Húsavík, Hvalasafninu á Húsavík, Náttúrustofu Norðausturlands, PCC Bakka Silicon, Ocean Missions, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík, Framhaldsskólanum á Húsavík, auk óstofnaðra samtaka um verndun í og við Skjálfanda. Til stendur að setja á fót skólaráð STEM Húsavík með aðkomu allra skólastiga.
Eftir því sem umhverfisaðstæður breytast er hefðbundnum lífsháttum og framfræslu ógnað, ekki síst í smærri byggðarlögum landsins. Hraðar tækniframfarir kalla á nýja hæfni og samfélög verða að aðlagast og þróa færni sína, viðhorf og seiglu gagnvart þessum breytingum. Það sama á við um hæfni til að vinna þvert á ólík svið, leita nýrra lausna, gagnrýna og taka virkan þátt í lýðræðislegri umræðu.
Hlutverk STEM Húsavík er að þjóna sem samfélagslegt vistkerfi og samanstendur af ólíkum aðilum innan samfélagsins: Skólum og fræðslustofnunum, rannsakendum og atvinnulífi, iðnaði, félagasamtökum, menningarstofnunum, söfnum, bókasöfnum, listafólki, fjölskyldum og einstaklingum. Fræðslunetið er opið öllum sem áhuga hafa.

Fræðslunetið mun nota alþjóðlegt, vel þekkt og áhrifaríkt líkan STEM Learning Ecosystems til að bjóða bestu starfsvenjur þegar kemur að hagnýtri fræðslu og kennslu. Sérfræðiþekking Bridgetar Burger er mikilvægur hlekkur í því ferli, sem hefur gert það að verkum að hægt er að nýta reynslu frá fyrstu hendi við innleiðingu og uppbyggingu fræðslunetsins.