Vel heppnað sumarnámskeið STEM Húsavík: Náttúruvísindakrakkar

Á föstudag lauk tveggja vikna sumarnámskeiði STEM Húsavík fyrir 10-12 ára börn með vettvangsferð í Ásbyrgi. Námskeiðið er hluti af aðgerðum STEM Húsavík til að auka vitneskju um STEM í samélaginu. Námskeiðið var styrkt af Barnamenningarsjóði, í úthlutun sjóðsins fyrir 2023.

14 börn tóku þátt í námskeiðinu sem stóð yfir í tvær vikur, tvær klst á dag. Lögð var áhersla á náttúru og nærumhverfi og lærðu þátttakendur að gera sínar eigin rannsóknir, lærðu vísindalegu aðferðina, söfnuðu gögnum og lærðu um og rifjuðu upp ýmis hugtök eins og ljóstillífun, flokkun, greining og ferli vatns í umhverfinu. Þá var ýmislegt sem vakti athygli í umhverfinu eins og þær óteljandi tegundar af fléttum sem finna má á steinum á Íslandi.

Þá fengu náttúruvísindakrakkar að fylgjast með störfum fuglafræðings og heyra um fuglarannsóknir frá Náttúrustofu Norðausturlands, fóru í heimsókn í Hvalasafnið á Húsavík þar sem þau hittum Dr. Marianne Rasmussen frá Rannsóknastofnun Háskóla Íslands á Húsavík og Garðar Þröst frá Hvalasafninu.

Í Hvalasafninu settu þau fram sína eigin tilgátu með viðeigandi rannsóknum. Námskeiðið var svo fléttað saman með leikjum og rannsóknarleiðöngrum í nærumhverfinu. Lokahnykkurinn var vettvangsferð í Ásbyrgi þar sem Gljúfrastofa var heimsótt, farið var í náttúrufjársjóðsleit og nemendur fengu viðurkenningarskjöl í lok námskeiðs. 

Ath: STEM Húsavík gerir ráð fyrir að halda annað námskeið í ágúst fyrir hóp 2, sama efnis, en með öðru sniði. Það verður nánar auglýst á næstu vikum.

STEM Húsavík leiðir verkefnið Artic STEM Communities

Þann 17. apríl sl. samþykkti stýrihópur Norðurslóðaáætlunarinnar (Northern Periphery and Arctic Programme) 6 verkefni úr verkefnakalli tvö .

Um er að ræða 5 aðalverkefni í forgangsröðun 1 og 2 og eitt svokallað “smáskala” verkefni, sem er jafnframt fyrsta verkefni nýs flokks, sem kallast forgangur 3 og snýst um að styrkja samstarfsmöguleika á Norðurslóðum. Það er verkefnið Arctic STEM Communities sem STEM Húsavík leiðir, en það er fyrsta verkefni sem samþykkt hefur verið frá upphafi í forgangsröðun 3. Slík “smáskala” verkefni nýtast jafnframt sem undirbúningsverkefni stærri verkefna.

Verkefnið hefst formlega 1. júní og nær yfir 18 mánaða tímabil, en nú á dögunum fór Huld á upphafsfund Norðarslóðuaáætlunarinnar þar sem forsvarsfólk allra 6 verkefnanna kom saman í Kaupmannahöfn.

Arctic STEM Communities snýst um að efla samfélög á Norðurslóðum og byggja upp færni til framtíðar með STEM Learning Ecosystems líkaninu, og byggja þannig upp þversamfélagsleg námsvistkerfi í kringum hágæða STEM menntun.

STEM Húsavík formlega hluti af STEM Learning Ecosystems starfssamfélaginu- Fyrst á Norðurlöndum

Dagana 1. – 3. maí fór fram árleg ráðstefna STEM Learning Ecosystems starfssamfélagsins (SLE Community of Practice) sem haldin er af TIES (Teaching Institute for Excellence in STEM) í Flórída í Bandaríkjunum. Starfssamfélagið samanstendur af 111 námsvistkerfum sem deila reynslu, aðferðum og niðurstöðum sín á milli.
STEM Húsavík var í hópi 9 nýrra námsvistkerfa sem tekin voru formlega inn í starfssamfélagið á ráðstefnunni. 

Flest námsvistkerfin starfa vítt og breytt um Bandaríkin, en þeim hefur undanfarin ár fjölgað jafnt og þétt utan Bandaríkjanna og er nú að finna SLE námsvistkerfi í Kanada, Mexíkó, Kenýu og Ísrael ásamt Íslandi. Námsvistkerfin ná samanlagt til yfir 42 milljóna skólabarna á leik- og grunnskólaaldri og eru yfir 900.000 kennarar og leiðbeinendur hluti af því.

Það er mikill heiður að hafa verið valin til að vera hluti af STEM Learning Ecosystems starfssamfélaginu og vera loksins komin á kortið, að ekki sé tala um að vera fyrst á Norðurlöndunum og N-Evrópu. 

Það eru sannarlega spennandi tímar framundan og við hlökkum til að tengjast, kynnast og læra af hinum 110 námsvistkerfunum sem byggja samfélagið.  
STEM Húsavík verður á næstu vikum tengt við annað námsvistkerfi sem mun gegna leiðsagnarhlutverki (mentor) fyrstu missierin og bíðum við spennt eftir að fá að tengjast inn í þennan litríka og fjölbreytta heim.

STEM Hádegi: Möguleikar á nýtingu lífræns áburðar úr úrgangi

Í Hádegishittingi marsmánaðar sagði Martin Varga frá verkefni sína um fýsileika þess að framleiða lífrænan áburð úr úrgangi sem annars er hent. Martin hlaut nýverið styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra til þess að skoða möguleikana hér á svæðinu, en erlendis þekkist þessi aðferð og er vel nýtt.

Fjölmargir þættir ýta undir fýsileika þess að notast við lífrænan áburð framleiddan á Íslandi í stað tilbúins/framleidds áburðar, svosem flutningskostnaður nú í kjölfar covid, sem og stríðsins í Úkraínu – en ekki síður en háværar kröfur út frá náttúruverndar- og heilsufarssjónarmiðum, en notkun á tilbúnum áburði hefur neikvæð áhrif til langs tíma á jarðveg, grunnvatn og sjó.
Þá eykst eftirspurn eftir lífrænum matvælum með hverju árinu.

Hér er Martin með sýnishorn af áburði úr kinda-ull, kindahornum, þara og hestaskít.

Fyrsti hlaðvarpsþáttur STEM Spjallsins

Ein af aðgerðum STEM Húsavík fyrsta árið til að auka vitneskju um STEM í samfélaginu, er að setja í loftið hlaðvarpsþætti um STEM í samfélaginu.

Það er því ánægjulegt að tilkynna um fyrsta þátt STEM Spjallsins, sem nú er kominn í loftið á hlaðvarpsveitunni Podbean.

Í þáttunum fær Huld Hafliðadóttir, forstöðukona STEM Húsavík, til sín gesti sem á einhvern hátt tengjast STEM (vísindi, tækni, verkfræði, stærðfræði) í samfélaginu, hvort heldur sem er í gegnum nám og kennslu, störf og rannsóknir eða á annan hátt. 

Mikilvægi tölvu- og tæknimenntar STEM Spjallið

Sigurður Narfi Rúnarsson, kennari við Framhaldsskólann á Húsavík, er nýjasti gestur STEM spjallsins. Hann skrifaði M.ed. ritgerð sína um mikilvægi tölvu- og tæknimenntar fyrir framtíðina. Í STEM spjallinu ræðum við um STEM kennslu, Arduino og annars konar forritun og mikilvægi þess að fá að fikta og prófa sig áfram.
  1. Mikilvægi tölvu- og tæknimenntar
  2. Hvað gerir hugbúnaðarsérfræðingur?

Ef þú hefur ábendingar um áhugaverðan viðmælanda fyrir STEM Spjallið, ekki hika við að hafa samband: stem@stemhusavik.is

Þessi hlaðvarpsþáttaröð er styrkt af Samfélagssjóði Landsvirkjunar.