STEM Hádegi: Möguleikar á nýtingu lífræns áburðar úr úrgangi

Í Hádegishittingi marsmánaðar sagði Martin Varga frá verkefni sína um fýsileika þess að framleiða lífrænan áburð úr úrgangi sem annars er hent. Martin hlaut nýverið styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra til þess að skoða möguleikana hér á svæðinu, en erlendis þekkist þessi aðferð og er vel nýtt.

Fjölmargir þættir ýta undir fýsileika þess að notast við lífrænan áburð framleiddan á Íslandi í stað tilbúins/framleidds áburðar, svosem flutningskostnaður nú í kjölfar covid, sem og stríðsins í Úkraínu – en ekki síður en háværar kröfur út frá náttúruverndar- og heilsufarssjónarmiðum, en notkun á tilbúnum áburði hefur neikvæð áhrif til langs tíma á jarðveg, grunnvatn og sjó.
Þá eykst eftirspurn eftir lífrænum matvælum með hverju árinu.

Hér er Martin með sýnishorn af áburði úr kinda-ull, kindahornum, þara og hestaskít.

Fyrsti hlaðvarpsþáttur STEM Spjallsins

Ein af aðgerðum STEM Húsavík fyrsta árið til að auka vitneskju um STEM í samfélaginu, er að setja í loftið hlaðvarpsþætti um STEM í samfélaginu.

Það er því ánægjulegt að tilkynna um fyrsta þátt STEM Spjallsins, sem nú er kominn í loftið á hlaðvarpsveitunni Podbean.

Í þáttunum fær Huld Hafliðadóttir, forstöðukona STEM Húsavík, til sín gesti sem á einhvern hátt tengjast STEM (vísindi, tækni, verkfræði, stærðfræði) í samfélaginu, hvort heldur sem er í gegnum nám og kennslu, störf og rannsóknir eða á annan hátt. 

Mikilvægi tölvu- og tæknimenntar STEM Spjallið

Sigurður Narfi Rúnarsson, kennari við Framhaldsskólann á Húsavík, er nýjasti gestur STEM spjallsins. Hann skrifaði M.ed. ritgerð sína um mikilvægi tölvu- og tæknimenntar fyrir framtíðina. Í STEM spjallinu ræðum við um STEM kennslu, Arduino og annars konar forritun og mikilvægi þess að fá að fikta og prófa sig áfram.
  1. Mikilvægi tölvu- og tæknimenntar
  2. Hvað gerir hugbúnaðarsérfræðingur?

Ef þú hefur ábendingar um áhugaverðan viðmælanda fyrir STEM Spjallið, ekki hika við að hafa samband: stem@stemhusavik.is

Þessi hlaðvarpsþáttaröð er styrkt af Samfélagssjóði Landsvirkjunar.

Fyrsta vinnustofa kennara

Árið byrjaði farsællega hjá STEM Húsavík, en fyrsta vinnustofa fyrir kennara var haldin 2. janúar. Það voru rúmlega 40 kennarar og annað starfsfólk frá leikskólanum Grænuvöllum sem nýttu hluta úr starfsdegi sínum til að læra um STEAM fyrir leikskóla. 

Um vinnustofuna sáu Huld Hafliðadóttir og Bridget Burger, en starfsfólk kom í fjórum hópum og stóð hver vinnustofa yfir í um klukkustund. 
Á vinnustofunni voru kynnt ný STEM tæki og leikir fyrir starfsfólk, en tækin verða aðgengileg til útláns í tækjasafni STEM Húsavík. STEM tækin eru hluti af styrkveitingu Bandaríska sendiráðsins, en STEM Húsavík hlaut styrk frá Bandaríska sendiráðinu nú í vetur. Með styrkveitingunni gefst STEM Húsavík kleift að bjóða upp á vinnustofur fyrir kennara í kringum tæki í tækjasafni, sem og að kaupa og eiga STEM tæki sem styðja við kennslu STEM greina.
Markmið vinnustofunnar var að gefa yfirsýn yfir STEAM og hvernig það lítur út í kennsluumhverfi barna á fyrstu skólastigunum, eða fyrir 1-6 ára börn og kynna STEAM orðaforða sem fellur vel að kennsluumhverfi ungra barna.

Þá var markmiðið einnig að efla og hvetja kennara til að bæði kenna STEAM sem og að nýta sér sem og innleiða orðaforða STEAM við kennslu. Þá undirstrikuðu Huld og Bridet að það mikilvæga er að muna að börn eru vísindamenn frá nátturunnar hendi. Þau kynnast heiminum með því að gera tilraunir, snerta, skynja, smakka og nota til þess vísindalega aðferð. Sömu aðferð og vísindafólk notar, neman í einfaldaðri mynd.

Þá endaði hver vinnustofa á heimsókn í FabLab Húsavík þar sem starfsfólk fékk kynningu á starfseminni og hugmyndir að mögulegri nýtingu í leikskólastarfi ræddar.
Stuðningur við kennara var ein af meginaðgerðum STEM Húsavík sem skilgreindar voru í stefnumótun í maí 2022, en bæði Lóa, Nýsköpunarstyrkur fyrir landsbyggðina, sem og styrkurinn frá Bandaríska sendiráðinu styrktu vinnustofur fyrir kennara. Til stendur að bjóða upp á vinnustofur fyrir kennara allra skólastiganna á Húsavík á næstu vikum og mánuðum.

Fulbright heimsókn 2/2

Nú í október fór fram síðari Fulbright heimsókn Bridgetar Burger, Fulbright sérfræðings í STEM menntun. Heimsóknin hófst á þátttöku í Arctic Circle í Reykjavík en lauk á Húsavík með röð vinnustofa fyrir starfsfólk Þekkingarnets Þingeyinga, samfélagstengingum í kringum NorthQuake jarðskjálftaráðstefnuna og samtali við kennara.

Á dagskrá Fulbright heimsóknarinnar voru m.a. vinnustofur sem Bridget Burger hélt um Verkefnamiðað nám (Project Based Learning), Nýsköpunar- og uppfinningamennt (Invention Education og Innovation Education), Árangursvíddir (Dimensions of Success) út frá PEAR’s líkaninu, en PEARS stendur fyrir Partnerships in Education and Resilience.

Þá áttu Huld og Bridget góð samtöl við kennara á svæðinu, en ein af mikilvægustu aðgerðum STEM Húsavík, sem skilgreindar voru í stefnumótun ráðgefandi stjórnar í maí sl., var tenging við skóla og stuðningur við kennara. Mikilvægt er að heyra frá fyrstu hendi hvaða stuðning kennarar kjósa að fá frá STEM Húsavík til að auðvelda og greiða leið að hágæða STEM kennslu.

STEM Húsavík á Arctic Circle

Um helgina lauk síðari Fulbright heimsókn Bridgetar Burger, en hún hófst um miðjan október með þátttöku í Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpunni. Þar tóku Huld, verkefnastjóri STEM Húsavík og Bridget þátt í vinnustofum um menntun á norðurslóðum, auk þess að beina sjónum sérstaklega að konum og unmennum.

Arctic Circle var haldið dagana 13. – 16. nóvember og voru yfir 2000 þátttakendur í ráðstefnunni í ár og yfir 200 vinnustofur og viðburðir. Rödd frumbyggja á norðurslóðum var sterk og áberandi á ráðstefnunni, ásamt röddum ungmenna, en báðir hópar kölluðu skýrt eftir að vera hafðir með í ákvarðanatökum og stefnumótunum.

Huld og Bridget náðu að eiga samtal og mynda góð tengsl við samfélagsleg net og ungmennahreyfingar í Kanada og Grænlandi og hlakkar til að eiga áframhaldandi samtal og samstarf um STEM menntun á norðurslóðum í komandi framtíð.