
Dagana 1. – 3. maí fór fram árleg ráðstefna STEM Learning Ecosystems starfssamfélagsins (SLE Community of Practice) sem haldin er af TIES (Teaching Institute for Excellence in STEM) í Flórída í Bandaríkjunum. Starfssamfélagið samanstendur af 111 námsvistkerfum sem deila reynslu, aðferðum og niðurstöðum sín á milli.
STEM Húsavík var í hópi 9 nýrra námsvistkerfa sem tekin voru formlega inn í starfssamfélagið á ráðstefnunni.
Flest námsvistkerfin starfa vítt og breytt um Bandaríkin, en þeim hefur undanfarin ár fjölgað jafnt og þétt utan Bandaríkjanna og er nú að finna SLE námsvistkerfi í Kanada, Mexíkó, Kenýu og Ísrael ásamt Íslandi. Námsvistkerfin ná samanlagt til yfir 42 milljóna skólabarna á leik- og grunnskólaaldri og eru yfir 900.000 kennarar og leiðbeinendur hluti af því.

Það er mikill heiður að hafa verið valin til að vera hluti af STEM Learning Ecosystems starfssamfélaginu og vera loksins komin á kortið, að ekki sé tala um að vera fyrst á Norðurlöndunum og N-Evrópu.

Það eru sannarlega spennandi tímar framundan og við hlökkum til að tengjast, kynnast og læra af hinum 110 námsvistkerfunum sem byggja samfélagið.
STEM Húsavík verður á næstu vikum tengt við annað námsvistkerfi sem mun gegna leiðsagnarhlutverki (mentor) fyrstu missierin og bíðum við spennt eftir að fá að tengjast inn í þennan litríka og fjölbreytta heim.