Leikskólinn Grænuvellir setur stefnuna á STEM

Síðastliðinn þriðjudag, á starfsdegi kennara í Norðurþingi, vann starfsfólk Grænuvalla, undir handleiðslu STEM Húsavík, undirbúningsvinnu fyrir innleiðingu STEM sem námsstefnu í öllu starfi leikskólans. 

Kjarnafærni í STEM greinum og færni fyrir 21. öldina er færni sem kallað er eftir í atvinnuumhverfi framtíðarinnar, en börn öðlast slíka færni m.a. í gegnum hágæða STEM menntun, allt frá unga aldri. 
Rannsóknir og niðurstöður alþjóðlegra mælinga sýna að nemendur missa áhuga og sjálfstraust í raungreinum um miðja grunnskólagöngu og ljóst að greinarnar þarfnast aukins stuðnings ef vel á að ganga að byggja upp færni fyrir framtíðina. 
Mikilvægt er því að byrja fyrr að kynna börn fyrir hugtökum innan vísinda, verkfræði og stærðfræði, styðja markvisst við þau í gegnum nám og gera þeim kleift að yfirfæra og tengja viðfangsefni sín við daglegt líf sitt. 

STEM í leikskólastarfi snýst að stærstum hluta um að skapa rými fyrir STEM nám og uppgötvanir með efni, opnum leik og stuðningi frá kennara; að bregðast við starfi/leik barns á hlutlausan hátt og hvetja barnið til að lýsa því sem það er að gera/hefur gert; að nota opnar spurningar og STEM orðaforða til að leiða börn áfram, auk þess að vera fyrirmynd og sýna í verki vísindalega aðferð eða ferli verkfræðihugsunar. Langflest ofangreint á sér nú þegar stað í leikskólum en mikilvægt er að kennarar og starfsfólk sé meðvitað um undirliggjandi ferla og leiði börn áfram með það í huga að efla sköpunarkraft þeirra, seiglu og úthald. Börn nota vísindalega aðferð í sínu daglega lífi við að læra á heiminn, prófa sig áfram og gera athuganir. Hlutverk fullorðinna er að leyfa þeim að gera sínar uppgötvanir og jafnframt leyfa þeim að gera mistök, en mistök eru eitt það mikilvægast í lærdómsferlinu, hvort sem notast er við vísindalega aðferð eða ferli verkfræðihugsunar. 

Brigdget og Huld leiddu starfsfólk í gegnum ferlið við að setja fram framtíðarsýn, skoða hvar leikskólinn er staddur í dag og hvað þarf til, til að framtíðarsýnin verði að veruleika. Að sögn Siggu Valdísar, skólastjóra Grænuvalla, fór dagurinn fram úr þeirra væntingum og segir hún vinnustofuna hafa skilað meiru en hún átti von á. 
Auk stefnumótunarinnar var lögð áhersla á að setja á fót faglegt lærdómssamfélag innan skólans, þar sem starfsfólk hefur vettvang til að styðja hvert annað og leiðandi starfsfólk í innleiðingunni getur deilt aðferðum og árangri.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá deginum.

Leave a Reply

%d bloggers like this: